Þessi á sem ég hef aðeins einu sinni veitt í er fyrsta áin sem ég veiði í utan Evrópu og þótt mörg ár séu liðin man ég eftir hversu spennandi það var að reyna að veiða þarna og fylgjast með því hvað aðrir veiddu, þetta var líka í fyrsta sinn sem ég veiddi með kastneti og árangurinn eftir því, við vorum 5 í þessari ferð Felipe og Pedro frá Úrúgvæ Ken og Paul frá Bandaríkjunum og svo ég frá Íslandi
Gróskumiklir bakkar svo ekki í boði að labba upp með ánni svo við veiðum bara hér fyrir framan þar sem við stöndum , en undir okkur er steypt brú sem er flæddi létt yfir sem er aðallega hugsuð fyrir hestamenn og nautgriparekstur
Hér er hinn mikli meistari Felipe Cantera sem því miður lést fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum að sýna mér og Paul hvernig kasta á kastneti enda hafði hvorugur okkar notað kastnet áður og virtist þetta mjög létt hjá honum en við Paul áttum í smá vandræðum með netið allavega fyrstu klukkutímana og var því mikil gleði í hvert sinn sem einhver tittur kom á land hjá okkur
Fyrsta kast hjá Felipe og netið iðaði af lífi, hefði ég verið staddur í asíu hefði ég tengt þetta við sae þörungaætuna en þarna er ég í suður-ameríku svo það passaði ekki, Hvað heitir þessi tegund spyr sá sem ekki veit og í þessu tilfelli var það ég sem vissi ekkert hvaða tegund þetta var og spurði því til að auka vitneskju mína, svarið sem ég fékk var “ Góð beita “ og þá komst ég að því að samferðamenn mínir höfðu mestan áhuga á síkliðum og kattfiskum og allt annað var kallað beita enda mátti vel veiða stóra fiska með því að beita minni fiski á öngulinn
Eftir að hafa skoðað nokkra líka fiska sem finnast á svipuðum slóðum hallast ég að því að þetta sé Apareiodon affinis og samkvæmt netinu eru þeir mjög góðar þörungaætur sem er skemmtilegt því sama má segja um hinn asíska sae sem lítur nokkurn veginn eins út svo þróunin er sú sama í lögun og lit í sitt hvorri heimsálfunni
Talsverðan tíma tók að læra að nota kastnetið það vel að fiskur kæmi í það og vorum við Paul farnir að efast um að við næðum einhverju þegar Paul náði hrygnu af Gymnogeophagus og þótt ég væri ánægður fyrir hans hönd þá var ég farinn að hafa áhyggjur af því hvort ég næði nokkurn tíma síkliðu sjálfur en auðvitað breyttist það þótt ekki hafi það gerst þarna fyrsta daginn minn með kastnet
En þótt við Paul værum ekki að moka inn þá voru þeir vönu Felipe og Ken að moka inn fiskum, þetta er fullvaxinn hængur af Gymnogeophagus sp. Fiahlo með skemmtilegar doppur út um allt
Annar hængur af sömu tegund og fyrir ofan
Þessar tvær síkliður af tegundinni Gymnogeophagus terrapurpura komu upp í sama kasti svo mögulega par, þar sem kynin eru mjög lík þá er einna helst að skoða stöku uggana á fiskunum og þar er hængurinn með þá aðeins stærri og oddhvassari heldur en hrygnan
Hængur af Crenicichla lepidota, fiskar af þessari ætt síkliða eru oftast kallaðir pike cichlid enda grimmir og öflugir í að veiða minni fiska, margar tegundir til í suður-ameríku og nokkrar í Úrúgvæ, hrygnan af þessari tegund fær rauðan maga og er talsvert flottari en hængurinn,
Þessi litla tetra held ég að hafi verið fyrsti fiskurinn sem ég veiddi þarna í minni fyrstu ferð svo auðvitað hefði ég átt að stoppa hann upp og kaupa mér svo hús með arni og setja fiskinn þar fyrir ofan til minningar en ég lét myndina duga áður en ég sleppti honum
Þarna eru Paul til vinstri og Ken til hægri að setja fisk í þvottakörfuna sem ætti að vera með í öllum svona veiðiferðum enda þarf ekkert að fylgjast með fiskum þar og er þetta því lang skynsamasta leiðin til að geyma fiska yfir dagin án þess að þurfa stöðugt að fylgjast með þeim , einnig þarna í vatninu er blá tunna sem er notuð undir fiska sem teknir eru með í bílinn og þarna er hún ofaní til að vatnið hitni ekki of mikið í lofthitanum en þar sem það lekur ekki vatn inn í hana þarf stöðugt að fylgjast með hvort nægt súrefni sé í vatninu en þegar tunnan fer í bílinn tengist hún í loftdælu
Til að þvottakarfan fljóti ekki niður ána þá er settur steinn eða nokkrir í botninn á henni , síðan er hún sett í grynningar og ekki verra ef hægt er að hafa hana í skugga, og vegna þess að áin streymir í gegn um götin þá er hægt að geyma mjög mikið af fiski þarna allan daginn án þess að hafa af þeim áhyggjur en fyrir okkur sem eru að sækja fiska til að eiga þá er lofthitinn oft vandamál því vatn í fötu á bakkanum verður fljótt of heitt og þá minnkar súrefni og fiskarnir hætta störfum og það væri til lítils að fara hinum meginn á hnöttinn til að veiða klikka svo á þvi hvað þarf að gera til að fiskarnir haldist hressir allan tímann
Þessir Pseudocorynopoma doriae eru öðruvísi í laginu og minna aðeins á axarfiska þeir kallast dragon fin á ensku og fær hængurinn talsvert lengri ugga og kemur nafnið á þeim þaðan, efri fiskurinn er hængur en þótt hann sé ekki kominn með fulla lengd í uggana sjáum við samt nóg til að sjá að þetta sé sitthvort kynið
Þarna rennur áin aftur inn í skóginn og má gera ráð fyrir því að þarna í straumnum finnist ancistrus og jafnvel aðrar týpur af kattfiskum en við fórum ekkert þarna úti enda allir að leita að síkliðum og ég vissi ekki á þessum tíma hvaða fiskar gætu fundist í straumnum
Ég sáttur í miðri veiði á meðan Pedro bílstjóri var að grilla handa okkur nautakjöt og pylsur að hætti innfæddra, Þar sem nautin í Úrúgvæ eru utandyra allt árið um kring að japla á fersku grasi þá er kjötið það besta sem ég hef smakkað og ekki skemmir fyrir hversu hægt þeir grilla það, sem gerir það mjúkt sem smjör en safaríkt og meiriháttar og er það ein af ástæðunum að búast má við þyngingu um 2 kg á hverja viku sem maður er í veiði þarna