Lítill lækur sem við keyrðum fram á í Úrúgvæ og ákváðum að sjá hvað væri þar að finna
Lítil brú er þarna í vinstra horninu og undir hana rennur lækurinn, grjót sem er undir og við brúna virkar sem lítil stífla og myndast þá smá flúðir sem eru vinsælar hjá ancistrus tegundum og sumum ættingjum eins og td. af Hemiancistrus ætt
Þegar við reynum að ná ancistrus af grýttum botni förum við vanalega tveir til að auka líkur á að ná þeim, með þeirri aðferð að einn lyftir steini hægt upp á meðan hinn rennir háfi undir og síðan lyfta báðir upp, því ancistrus hanga oft á steinunum þar til þeir koma uppúr og detta þá í háfinn sem er fyrir neðan og fljótlega voru komnar nokkrar á land
Þetta eru litmestu ancistrus sem ég hef fundið hingað til í Úrúgvæ og þetta var á öðrum degi í minni fyrstu ferð í læk sem engin nennir í aftur því aðstaða til veiða var lítil því vatnið var mjög djúpt nema alveg við brúna, en djúpt vatn er fínt til að veiða með stöng en minni líkur að ná einhverjum síkliðum sem flestir eru að leita eftir í þessum ferðum
Bílstjórinn í mínum ferðum til Úrúgvæ hefur hingað til verið Pedro og hefur hann gaman af því að dorga á meðan við leitum að minni fiskum sem væru hentugri í fiskabúr , en vegna þess hversu mikið hann dorgar þá nær hann oft skemmtilegum stærri fiskum sem við fáum ekki í háfana eins og td. þessum kattfisk sem hann heldur hér á
Ég lofa engu en þetta gæti verið Rhamdia aff. quelen ? En allavegna er þetta stæðiegur kattfiskur sem þyrfti stórt búr
Ein af algengari Crenicichla á þeim stöðum sem ég hef verið að veiða er Crenicichla scottii en nokkrar aðrar tegundir eru í landinu, þetta er hængur
Hér er hrygna af Crenicichla scottii, og þekkist hún á svarta flekkinum sem er innrammaður með ljósum lit á bakugganum, þetta er öflug tegund og færi bara í stærstu búr, ég hef veitt þá 25-30 cm í stærri ám
Þessi stæðilega tetra kom í kastnetið og var um 10 að lengd, hún er talsvert búkmikil og minnir smá á regnbogafiska í lögun
Þetta er fyrir ofan brúna, djúpt vatn og frumskógur allt í kring, svo í alla staði vonlaus staður fyrir háfa og kastnet þótt að sjálfsögðu hafi verið reynt að veiða þannig en aðeins nokkrir fiskar komu á land svo fljótlega var pakkað saman og haldið á næsta stað
Þar sem er vatn þar er líf og þessi drekafluga beið nógu lengi svo ég gæti tekið mynd af henni á þessu skrítna strái
Fiðrildi sem fær að fljóta með, mér finnst ekki mikið af skordýrum og þess háttar í Úrúgvæ en kannski er ég bara svo mikið að horfa ofan í vatnið að ég taki ekki eftir þeim upp á landi