Í veiðiferðum er nauðsynlegt að fá góðan morgunmat svo dagurinn byrji vel, stundum er hægt að fá eitthvað þar sem við gistum en ekki alltaf og þá finnum við stað eins og í þessu tilfelli
Það var greinilega hugað að öryggi gesta því búið var að gera ramp upp að tröppunum
Þægilegt var að finna staðinn þar sem blá tjöld voru við innganginn og þarna er leiðangurstjórinn kominn upp á pallin fyrir utan, sumir myndu segja að það væri kominn tími á smá viðhald en aðrir að gott sé að nýta hlutina allt til enda
Kokkurinn og eldhúsið reyndist vera á pallinum við innganginn sem er auðvitað þægilegt því að ruslið fer bara beint í hænurnar sem eru þarna út um allt og svo þegar þær verpa er bara hægt að setja eggin beint á pönnuna
Salurinn var málaður í bláum lit en eflaust nokkur ár síðan , fjögur borð, stólar og allir spenntir að bíða eftir matnum Þessir fimm eru frá sitthvoru landinu frá vinstri Kamerún, Frakkland, Svíþjóð, Holland og Þýskaland
Omeletta var í boði og eina spurningin var hvort maður vildi spaghetti eða ekki, matsalurinn var flísalagður eins og oft er á betri stöðum
Í svona ferðum reynir maður að lifa lífinu svo að sjálfsögðu þáði ég spaghetti á omelettuna sem reyndist býsna góð og þar sem enginn okkar varð veikur þennan daginn þá fórum við þarna aftur daginn eftir
Það var við hæfi að þakka hænunum fyrir utan fyrir matinn, þótt þetta væri í fyrsta sinn sem ég fór á veitingahús sem ræktaði matinn á tröppunum fyrir utan en vissulega gott í heimi þar sem margir hafa áhyggjur af kolefnisfótspori